154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Stutta svarið er: Ég er alls ekki hrifinn af því hvernig haldið hefur verið á þessum málum hér heima en ég er hræddur um að það sé út frá öðrum forsendum heldur en hv. þingmaður nálgast málið á.

Ef við berum saman, síðast þegar ég skoðaði tölurnar, ég held það hafi verið einhvern tímann upp úr páskum, undir lok vorþings, þá sóttu hingað til Íslands 20 sinnum fleiri um alþjóðlega vernd heldur en til Danmerkur. Mig minnir að það hafi verið 16 sinnum fleiri en til Noregs, í kringum tíu sinnum fleiri en til Finnlands og fjórum, fimm sinnum fleiri en til Svíþjóðar. Mig minnir að það séu nokkurn veginn tölurnar. En höldum okkur við Danmörku, svona 20 sinnum fleiri komu til Íslands en til Danmerkur. Þannig að já, ég held að það muni hafa áhrif á sókn hingað til Íslands ef við breytum fyrirkomulagi móttöku með þeim hætti að skilaboðin séu skýr. Við viljum að fólk sæki um á fjarsvæðum. Nú er ég að tala fyrir stefnu minni og skoðun í þessu máli. Ég vil raunverulega að færri komi hingað í von og óvissu upp á það hvort þau fái hæli eða ekki, það verði sett upp í átt að einhverjum kanal þar sem við getum unnið úr þessum málum, boðið hingað þeim sem við treystum okkur til að taka á móti og að við gerum það vel og styðjum við aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. (ArnG: Sá kanall er til.) Sá kanall til í gegnum kvótaflóttamannakerfið og þá skulum við nota það. Ég held að um leið og við tökum ákvörðun um að notast við það en ekki það fyrirkomulag sem hefur verið dálítið tilviljanakennt undanfarin ár þá verði miklu betri strúktúr á þessu. Kostnaðurinn við óþarfa hlutann minnki en þeim fjármunum sem við ákváðum að verja til málaflokksins verði þá varið til aðlögunar og þess að styðja við fólk sem hingað kemur.(Forseti hringir.) En ég held að fjöldinn sem hingað geti komið þannig að innviðir okkar ráði við (Forseti hringir.) sé allt annar og lægri heldur en við höfum orðið vitni að undanfarin ár.